Sunday, January 22, 2006

Mér finnst ég þurfa að segja svo mikið að mér dettur ekkert í hug.

Ég þrái að tala við þig, en í hvert sinn sem við tölum saman verður mér svo ljóst hve þú ert ekki hérna. Ég lýk þessum samskiptum svo ófullnægður. Næstum pirraður. Því mér finnst ég annaðhvort segja of lítið eða alltof mikið til að segja það sem ég raunverulega meina. Það eina sem maður getur sagt eru ómerkilegar fréttir, réttlætingar, yfirborðs gullkorn. Og þegar maður reynir að nota stóru orðin, til að fá útrás fyrir líðan sína, hljóma þau svo afkáralega lítilmegn um leið og þau eru sögð. Það liggur við að maður skammist sín, lækki róminn, beiti tónhæð og áherzlum sem maður trúir ekki, sem hljóma falskar. Ekki nóg, aldrei nóg.

Ófullnægður í hvert sinn.

Nema stundum. Í einstaka tilfellum þegar manni finnst maður segja eitthvað rétt. Og þá vil ég ekki segja meir, ekki drekkja því í hyli klaufalegrar kjarnleysu.
Ég elska þig svo mikið að ég er skjálfandi nekt, vandræðalegur og óviðeigandi, og hríslast um í auga storms upplifananna sem fylgja tilkomu þinni inní líf mitt.
Ég sakna þín svo að mér vefst tunga um ökkul og ég steypist um koll þegar ég reyni að segja þér frá því.

Mig langar að segja þér svo mikið að ég gleymi öllu sem ég kann.

Og það eina sem ég
það eina sem
er eftir
sem ég
er eftir
sem ég
kann, man, get, sé, heyri, bragða, sekk oní, flýt umí,
er skorturinn
á orðum
á formi
á sjálfum mér

á þér.

..kH